Vegtenging milli suðurlands og Skagafjarðar yrði gífurleg lyftistöng fyrir allan Skagafjörð og víðar. Almennilegur uppbyggður heilsársvegur sem tengja myndi Skagafjörð við suðurlandið myndi hafa gífurleg áhrif á ferðaþjónustu í firðinum ásamt því að minnka kostnað og auðvelda flutninga milli landshlutanna. Vegur sem kæmi niður Goðdalafjallið niður á veg 752 (Skagafjarðarveg) í Lýtingsstaðahreppi hinum forna færi um mjög snjólétt svæði sem hægt yrði að nota mestallt árið.
Þótt árið í ár sé ekki svipur hjá sjón í ferðamennsku vegna Covid-19 þarf að hugsa til framtíðar. Góður uppbyggður heilsársvegur yfir Kjöl sem kemur niður hjá Gullfossi og Geysi myndi opna á mikið flæði ferðamanna til að skoða náttúruperlur Skagafjarðar. Á suðurlandinu er í raun alltof mikið af ferðamönnum í venjulegu ári og fólk farið að forðast þaulsetnustu staðina. Mikil uppbygging myndi eiga sér stað í Skagfirskri ferðaþjónustu ef slíkur vegur yrði byggður ásamt fleiri möguleikum.
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation